Færsluflokkur: Lífstíll
Búddistasamtök SGI á Íslandi
26.3.2011 | 00:15
SGI-Ísland
Samtökin SGI-Ísland (Sokka Gakkai International Ísland) voru stofnuð hinn 17. júní 1980 og hafa starfað óslitið síðan. Að samtökunum standa rúmlega hundrað manns sem flestir eru búsettir í Reykjavík og nágrenni. Bresku samtökin, SGI-UK (Soka Gakkai International United Kingdom), hafa stutt íslensku Búddhistasamtökin frá upphafi með margvíslegum hætti.
Kjarninn í starfsemi SGI-Ísland eru fundir sem flestir eru haldnir eru á einkaheimilum. Félagar hafa skipst í hópa eftir búsetu en reynt er að velja þannig í hópana að hvorki of margir né of fáir séu saman í hóp miðað við fund í venjulegri stofu. Haldnir hafa verið undirbúningsfundir, umræðufundir og fræðslufundir í hverjum mánuði. Á fundum eru gerð sameiginleg gongyo en síðan fjallað um þau mál sem eru á dagskrá viðkomandi fundar. Í lok funda eru jafnan almennar umræður.
Kosen rufu gongyo, sameiginlegt gongyo tileinkað friði í víðtækustu merkingu, hefur verið fastur liður í starfsemi SGI-Ísland. Kosen rufu gongyo eru fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.
SGI-Ísland hefur árlega staðið fyrir námskeiðum sem venjulega hafa verið haldin í september. Þá hafa leiðtogar komið erlendis frá, haldið fyrirlestra og svarað fyrirspurnum. Venjulega hefur SGI-Ísland staðið fyrir svonefndum vinadegi ár hvert og hefur hann verið haldinn á miðju sumri
SOKA GAKKAI INTERNATIONAL
Soka Gakkai International, SGI, eru samtök leikmanna og byggja þau starfsemi sína á kenningum Nichiren Daishonin (1222-1282). Þau voru stofnuð af fyrsta forseta þeirra, Tsunesaburo Makiguchi, árið 1930 í Japan, í þeim tilgangi að útbreiða búddisma Nichiren Daishonin meðal venjulegra þjóðfélagsþegana. Samtökin hafa á síðustu 60 árum breiðst hratt og örugglega um víða veröld og undir forystu Makiguchi, Josei Toda og Daisaku Ikeda hafa þau öðlast virðingu í hugum þjóðhöfðingja og forsvarsmanna fjölda þjóða.
Árið 1975 var Soka Gakkai International (alþjóðleg samtök Soka Gakkai) stofnað. Daisaku Ikeda var gerður að forseta SGI strax við stofnun þeirra og gegnir hann því embætti enn. Ikeda hefur ferðast um allan heim, átt viðræður við fjöldann allan af fræði- og vísindamönnum og hafa umræðuefnin verið óþrjótandi. Menning, listir, friður, menntun, umhverfismál - allt sem snertir lífið hér á jörð og í alheimi. Lífsskoðanir Ikeda þykja undraverðar, svo lausar við neikvæðni og fordóma, fullar af von og mannúð. Þannig hefur Ikeda skapað samtökunum virðingu og vakið fólks um frið á 21. öldinni. Nú eru 25-30 milljónir manna og kvenna sem fylkja sér undir fána SGI í yfir 120 þjóðlöndum og tekið hafa ákvörðun um að fylgja þeirri friðar- og mannúðarhreyfingu sem SGI er.
Soka Gakkai þýðir "verðmætaskapandi samtök". Nafnið endurspeglar þá staðreynd að tilgangur með ástundun búddisma Nichiren Daishonin er að þroska með hverjum einstaklingi visku, kjark, umhyggju og kraft til að skapa verðmæti í öllu sínu starfi í þjóðfélaginu í heild.
Tilgangur Soka Gakkai International er:
A) Að stuðla að friði, menntun, menningu um alla jörð, sem grundvallast á búddisma Nichiren Daishonin.
B) Að stuðla að alheimsfriði, sérstaklega eð því að styrkja tengsl meðal venjulegra þjóðfélagsþegna hinna ýmsu landa um víða veröld.
C) Að breiða út fræðslu og iðkun búddisma Nichiren Daishonin sem kunngerir algjöra friðarstefnu. Að vinna að þessum grundvallarmarkmiðum sem framúrskarandi þjóðfélagsþegnar í samræmi við menningu og lög hvers lands fyrir sig.
Tilgangur samtakanna er því að tryggja trúarleg tengsl sem ná yfir alla jörðina og viðhalda kenningum Nichiren Daishonin hreinum, svo og að hjálpa öðrum meðlimum til að ástunda á réttan hátt. Með þessu skapast hin mesta hamingja og verðmæti fyrir sjálfa meðlimina og aðra. Samtökin hafa breiðst út til rúmlega 120 landa síðan þau voru stofnuð árið 1930. Starfsemi þeirra snertir marga þætti þjóðfélagsins, en aðallega hafa þau starfað í þágu friðar, menntunar og menningar. Fjöldi stofnana hafa risið á vegum SGI Má þar nefna Stofnun um austurlenska heimspeki, Min On tónlistarsamtökin, Komeito (stjórnmálaflokkur í Japan), Soka University (háskóli), FujiJapan. Á undanförnum árum hafa einnig risið á vegum SGI ýmiss konar skólar og listasöfn í öðrum löndum. Má þar nefna austurlenskt listasafn í Taplow Court á Englandi, Soka University of Los Angeles (Sula háskólinn) og Victor Hugo bókmenntasafnið sem staðsett er rétt fyrir utan París í Frakklandi. museum (listasafn) og Soka Women college (menntaskóli fyrir stúlkur).
Daisaku Ikeda
Daisaku Ikeda hefur verið forseti SGI frá upphafi (1975) en hann var áður forseti Soka Gakkai í Japan frá árinu 1960. Ikeda er fæddur í Omori, Tokyo, 2. janúar 1928. Hann er yngstur fimm bræðra en faðir hans ræktaði söl sem notuð var til manneldis. Ikeda segir að ringulreið hafi stöðugt ríkt á æskudögum sínum vegna ógna stríðsins. Hann þjáðist jafnframt af berklum og fátæktin var mikil hjá fjölskyldu hans. Tólf ára gamall hætti Ikeda í skóla vegna þessara erfiðu kringumstæðna. Þrátt fyrir stutta skólagöngu hefur Ikeda allt frá ungaaldri lagt stund á sjálfsnám og lesið hefur hann meira en margir aðrir menn. Hann hefur skrifað fjöldann allan af bókum; skáldsögum, fræðibókum og ljóðum. Þannig hefur hann snert hjörtu fólks um allan heim.
Sá maður sem mest áhrif hefur haft á Daisaku Ikeda er vafalaust meistari hans Josei Toda, II. forseti Soka Gakkai. Þeir hittust á fyrsta umræðufundinum sem Ikeda sótti innan samtakanna. Næstu ellefu árin studdi og fræddi Toda hinn unga nemanda sinn og undirbjó hann undir hið mikla hlutverk, að verða meistari kosen-rufu hér á þessari jörð.
Á þessum árum tókst Ikeda, með stöðugri iðkun, að ná aftur heilsu og verða öruggur og djúpvitur maður. Hann hefur ferðast til rúmlega 70 landa með það markmið í huga að sá fræi hins sanna búddisma, bæði með því að hvetja meðlimi, og ræða við áhrifamikla og virta menn. Mörg af þessum samtölum hafa verið gefin út, t.d. samtöl við Dr. Arnold Toynbee (Choose life) og Dr. Brian Wilson (Human values in a changing world). Þekktasta verk Ikeda er þó The Human Revolution, sem fjallar um fyrstu áratugina í sögu Soka Gakkai og komið hefur út á fjölmörgum tungumálum.
Ikeda hefur hlotið fjölda viðurkenninga og heiðursnafnbóta víða um heim. Hæst ber þar friðarverðlaun Sameinuðu þjóðanna, en þau hlaut hann í ágúst 1983 fyrir störf sín í þágu friðar og menningar. Störf hans eru ómetanleg og nafn hans verður án efa varðveitt á blöðum sögunnar.
En hvaða þörf hafa fylgendur Nichiren Daishonin fyrir slík samtök? Í leiðsögn sem Ikeda gaf meðlimum á ráðstefnu (Afríka-Evrópa) í París 6. júní 1987 segir hann:
"Samtök okkar eru lífsnauðsynleg.
Kosen rufu (alheimsfriður) mun breiðast út á 10 þúsund árum á síðari dögum lögmálsins. Þegar við hugsum um kosen rufu í framtíðinni finn ég mig knúinn til að leggja áherslu á mikilvægi þess að þið gerið ykkur grein fyrir því að hið mikla flæði samtaka okkar er algerlega lífsnauðsynlegt til að auðga störf okkar, vaxa í trú og gera okkar eigin manneskjubyltingu.
Með tímanum, þegar kosen rufu er orðið að veruleika, má vera að við þurfum engin samtök lengur. Þangað til verðum við hins vegar að sækja fram til kosen rufu með því að byggja upp hæf, viðeigandi samtök, því það eru störf okkar innan samtakanna sem raunverulega breyta okkar samfélagi. Þess vegna er nauðsynlegt í hverju landi fyrir sig að byggja upp samtök sem hæfa vel staðnum og tímanum. Einnig verðum við að sníða samtökin að því stigi sem þau eru í hreyfingunni í átt til kosen rufu í landi okkar. Samtökin sem nú eru að byggjast upp í hverju einstöku landi virðast smá í augnablikinu. En þau munu án efa mynda smárennsli sem síðan munu vaxa í stórkostlegar ár kosen rufu í framtíðinni.
Ég er meðvitaður um það að sumu fólki finnst það muni tapa frelsinu ef það tilheyrir samtökum, vegna þess að það muni verða háð þeim. Ég verð samt sem áður að segja að þetta sama fólk lítur aðeins á eitt sjónarhorn varðandi samtökin. Þið getið ekki ástundað trúna fullkomlega án samtakanna. Ef þið útbreiðið þessa trú ein munið þið örugglega slaka á varðandi veikleika ykkar og ástundun ykkar mun smám saman einkennast af sjálfbirgingshætti. Ef þetta gerist getið þið ekki lengur þroskað ykkur sjálf né þróað sterkan hreinan anda innra með ykkur, því þetta er röng aðferð ástundunar. Eina leiðin til að efla lífskraft ykkar er gegnum samskipti við alls konar fólk með með viðleitni ykkar til að uppörva hvert annað getið þið vaxið í trúnni. Í þessu liggur stórkostleiki samtaka okkar.
Í Gosho, "Um blóm og fræ", segir Nichiren Daishonin: "Ef uppsprettan er óþrjótandi mun fljótið aldrei þorna upp". Á sama hátt eruð þið, hvert í sínu landi, hin göfuga uppspretta, þaðan sem straumurinn til kosen rufu mun endalaust renna. Hvort straumur kosen rufu í ykkar landi mun vaxa í kraftmikið stórkostlegt vatnsfall eða þorna upp, ákvarðast af styrk ykkar og starfsemi ykkar innan samtakanna. Með tilliti til þess, bið ég ykkur að vera viss um að hvert ykkar hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna við að koma á friði og grósku í landi ykkar í framtíðinni.
Eining er grundvöllurinn að hinni kraftmiklu framsókn hreyfingar okkar. Án einingar getið þið ekki starfað sem hið kraftmikla flæði til kosen rufu. Ég vona að þið getið alltaf umborið veikleika hvers annars og jafnframt því horft sérstaklega á hvers annars sterku hliðar. Á þann hátt getið þið skapað sterkt og öruggt flæði kosen rufu og í samstillingu skapað Itai dosin."
(Þýtt úr leiðsögn Daisaku Ikeda)
Í þessum orðum Ikeda Sensei er raunverulega allt að finna sem varðar nauðsyn þess að hafa samtök. Ef við ætlum að viðhalda hreini og sterkri trú verðum við að starfa í samtökum. Öll störf okkar fyrir samtökin munu skila sér í gæfu og hamingju okkur til handa. Í búddisma Nichiren Daishonin eru engar fórnir. Í ljósi lögmáls orsaka og afleiðinga er öll okkar viðleitni í þágu kosen rufu einungis inneign á reikning lífs okkar. Oft og tíðum sjáum við ekki stórfengleika samtaka okkar, tökum þau sem sjálfsagðan hlut, líkt og maðurinn sem tekur ekki eftir fegurð heimalands síns fyrr en hann hefur verið langtímum saman að heiman. Við ættum að þakka Gohonzon á hverjum degi fyrir samtökin okkar, þakka Sensei fyrir störf sín í þágu SGI og reyna að finna djúpt í hjörtum okkar hve gæfusöm við erum að tilheyra slíkum samtökum.
Soka Gakkai International starfar í þágu friðar, menntunar og menningar. Sensei segir að kosen rufu (alheimsfriður) sé m.a. hið hreina samband frá hjarta til hjarta og fátt snertir hjarta manneskju meira en fagrar listir. Á sunnudaginn hlustaði ég á kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórinn og Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólans flytja stórfenglegt tónverk eftir Benjamin Britten (1913-1976). Þá skildi ég hvað Ikeda Sensei á við. Að hlusta á 125 ungmenni syngja af slíkri snilld snerti virkilega streng í hjarta mínu og ég skynjaði búddaeðli þeirra í hverjum tóni. Það er á þennan hátt sem við getum hvert og eitt okkar, þjálfað okkur í að brjótast út úr fjötrum feimni og óöryggis og snert strengi í hjörtum fólks með þeim listrænu hæfileikum sem í hverju og einu okkar búa. Til þess þurfum við samtökin.
Fólk þráir frið framar öllu öðru. Draumar þess eru að menning heimsins megi blómstra í jarðvegi varanlegs friðar. Það þráir jafnframt að lifa hamingjusömu lífi allt til enda. Við sem höfum tekið að okkur að koma á alheimsfriði getum það aðeins með hjálp samtakanna. Þegar við eru djúpt sokkin í gagnrýni hvert á annað, á leiðtogana okkar og samtökin í heild, ættum við að rifja upp tilgang þeirra og markmið. Margir fræðimenn um víða veröld trúa því að SGI hafi nú þegar hafið göngu sem opna muni veröldinni dyr að mannúð og séu í raun alheimssamtök. - - - Ég er fullviss um það að ef við fjarlægjumst samtökin og missum sjónir á stórfengleika þeirra, mun trú okkar dvína.
Soka Gakkai leggur sig fram við að láta manneskjunni í té andlega næringu. Ikeda Sensei hefur svo sannarlega lagt sig allan fram við að gefa fólki þá andlegu næringu sem það þarf. Kazuo Fuji (varaleiðtogi bresku samtakanna, SGI-UK) skrifaði í málgagn þeirra 1992: "Þegar 21. öldin gengur í garð mun SGI hreyfingin verða nægilega sterk til að koma í veg fyrir stríð". Við sjáum mjög víða áhrif SGI hjá forystumönnum fjölmennustu þjóða heims. Má þar nefna að í sigurræðu sinni sagði Bill Clinton, þá nýkjörin forseti Bandaríkjanna: "21. öldin er öld friðar og mannúðar, öld breytinga og nýrra tíma, þar sem andleg verðmæti verða sett ofar öðru."
Ég get ekki látið hjá líða að nefna eitt afar mikilvægt atriði varðandi samtök okkar. Við erum öll mannleg og gerum mistök. Við verðum að temja okkur það viðhorf að leyfa hvert öðru að gera mistök. Ef við ekki gerum það rífum við okkar eigin trú niður innan frá, verðum gagnrýnin - og að lokum getum við átt á hættu að fjarlægjast samtökin og fyrr en varir er trú okkar á hinar stórkostlegu kenningar Nichiren Daishonin einnig að fjarlægjast hjörtu okkar.
Að lokum langar mig að vitna í Gosho þar sem Nichiren Daishonin segir: "En sú gleði að vera fæddur á síðari dögum lögmálsins og vera þátttakandi í útbreiðslu hins sanna búddisma. Hversu aumkunarverðir eru þeir, sem þrátt fyrir að vera fæddir á þessum tíma, geta ekki trúað á Lótus sútruna". (Bréf til Nike, I. hefti, bls. 253)
Úr fyrirlestri eftir Magneu Reynaldsdóttur
Yfirfarið af þýðingarnefnd SGI-Ísland
(Fyrirlesturinn var fluttur í nóvember 1992)
Lífstíll | Breytt 2.6.2011 kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11 heilræði til að gera gott samband betra
25.3.2011 | 21:35
Margir telja að hæfilega mikið af rifrildum og deilum séu heilbrigður þáttur í sambandi tveggja ólíkra einstaklinga. Þessu er ég algjörlega ósammála. Rifrildi para verður til þegar báðir aðilar vilja ráða ferðinni án málamiðlana og reyna að spila með tilfinningar hins aðilans með reiði og hækkuðum rómi. Við hjónin höfum aldrei rifist vegna þess að við höfum ekki þörf fyrir það. Við erum alls ekki alltaf sammála en það þarf ekki að kosta rifrildi.
Hér koma nokkur heilræði til að gera gott samband betra :
1. Seldu King size rúmið og fáðu þér minna.
Af eigin reynslu veit ég það að par sem á stórt rúm, sefur á sitthvorri rúmbríkinni með haf og lönd á milli sín. Fyrra hjónaband mitt fór ekki að dala fyrr enn við fengum okkur King size....skeiðvöllur í fyrstu en það breyttist fljótlega í "minn helmingur og þinn helmingur". Nú sofum við, núverandi maðurinn minn og ég, í 140 cm breiðu rúmi og öryggistilfinningin sem fylgir því að finna alltaf fyrir maka sínum yfir nóttina er yndisleg.
2. Settu sængurnar í gestaherbergið og fáðu þér eina stóra.
Það er ekki hægt að fara ósáttur í rúmið þegar sofið er undir einni sæng. Það auðveldar líka öll önnur "samskipti" í bælinu. Í litlu rúmi, undir einni sæng, er hveitibrauðsdaga-tilfinningin ótrúlega lífseig.
3. Eyðið að minnsta kosti hálftíma um miðjan dag á frídögum til að liggja bara og kúra.
Þarna er mjög mikilvægt að ræða ekki áhyggjur og fjármál. Þær umræður eiga ekki heima í svefnherberginu. Þessar stundir eiga að vera bara um ykkur tvö, koddahjal og kitlur. Kitlur eru mjög mikilvægar.
4. Að hjálpast að við eldamennskuna og frágang.
Fátt færir par nær hvort öðru í hversdagsleikanum, heldur en að vera saman í því að næra fjölskylduna, hversu stór eða lítil hún kann að vera. Það skiptir engu máli þótt annar aðilinn kunni ekkert að elda, hann/hún getur samt aðstoðað. Þetta býður líka upp á að talað sé meira saman heldur en ella.
5. Eyðið kvöldunum saman og veitið hvort öðru athygli.
Hver er tilgangurinn með því að búa með einhverjum ef þið hittist bara í matartímanum og svo þegar farið er að sofa? Ef vinna eða skóli krefst þess að þið eruð eitthvað upptekin á kvöldin við tölvuna eða annað, reynið þá að taka frá síðasta klukkutímann, áður enn farið er að sofa, fyrir hvort annað og takið hugann frá verkefnunum. Kúr fyrir framan sjónvarpið getur virkað sem hinn besti forleikur. Það er ekki sexý að sitja í sitthvoru herberginu allt kvöldið og ætlast svo til að makinn sé til í tuskið þegar makinn hefur ekki fengið neina athygli í marga klukkutíma.
6. Ekki halda framhjá makanum með tölvunni.
Ef þú ert að vinna í tölvunni er alveg bráðnauðsynlegt að standa öðru hverju upp, læðast aftan að makanum og kyssa hann á hálsinn. Því á auðvitað að fylgja játning á því hversu miklu betra væri að eyða tímanum með makanum heldur enn tölvunni. Tölvuleikir eru algjört nónó nema þið séuð að spila saman í Playstation eða Nintendo. Tölvuleikir sem hannaðir eru fyrir einn, voru sennilega búnir til af skilnaðarlögfræðingum. Ekki eyða miklum tíma í svoleiðis þegar báðir aðilar eru heima.
7. Ef þú finnur fyrir pirringi, dragðu þig í hlé í smástund.
Það er mikill kostur hjá fólki sem getur hugsað fyrst og talað síðan. Óhugsaðar línur geta orðið til mikilla vandræða og stórskemmt sambandið. Hlutir sem sagðir eru í reiði eða pirringi eru yfirleitt ekki úthugsaðir.
8. Viðurkenndu það þegar þú hefur rangt fyrir þér.
Það segir sig nú sjálft að deilur eru sjálfdauðar þegar þetta kemur upp á yfirborðið. Þú ert ekki minni manneskja fyrir vikið heldur þveröfugt. Manneskja sem getur viðurkennt að hafa rangt fyrir sér hefur líka meiri tíma fyrir líf og gleði heldur en sú sem aldrei getur það og er föst í köngulóarvef þvermóðskunnar.
9. Lærðu að miðla málum.
Þar sem sambúð og heimilisrekstur er svolítið líkt því að reka fyrirtæki og eins og sæmilegir stjórnendur vita þá er í mörg horn að líta. Mismunandi skoðanir tveggja ólíkra einstaklinga eru óhjákvæmilegar á mörgum sviðum. Og þá er um að gera að mastera listina að miðla málum. Ég efast um að þegar þið byrjuðuð sambúðina upphaflega þá hafið þið hvort um sig hugsað sér að ráða öllu, sigra allar deilur, hafa alltaf rétt fyrir ykkur. Þetta er ekki keppni. Og því fyrr sem þið gerið ykkur grein fyrir því því lengri hamingju stundir eigið þið.
10. Finnið sameiginlegan flöt í lífinu.
Að eiga sameiginleg markmið eða áhugamál er eitt af því sem er í "mikilvægu reglunum". Reynið eins og þið getið að finna eitthvað sem getur sameinað ykkur utan svefnherbergisins. Þið verðið að geta rætt um fleira en skuldir og laun, annars er mun vandasamara að halda utan um sambúðina.
11. Játaðu ást þína á hverjum degi.
Þótt þessi sé listuð númer ellefu hérna þá er hún númer eitt í raunveruleikanum. Hún var sett hérna neðst til þess að þú myndir hana lengur.
Lífstíll | Breytt 2.6.2011 kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðhorf
23.1.2009 | 22:34
Eins og með alla aðra hafa hrjáð mig allskonar krankleikar og vandamálin ætla engan endi að taka, svo hvað er málið? Eftir að hafa legið undir feldi í svolítinn tíma til að hugsa hef ég komið upp með svör sem virka fyrir mig. Það má kalla þetta uppljómun um eigið líf. Ef ég skoða líf mitt , allt sem er að, þá blasir svarið við mér. Tilgangurinn er að sigrast á erfiðleikunum og veikindunum til að geta kennt öðrum hvernig á að gera það. Ég er ekki að tala um að veikindin eða erfiðleikarnir hverfi, ekki þannig sigur, það er oft á tíðum ekki hægt.
Heldur að láta ekki bugast, vera hamingjusöm ÞRÁTT fyrir erfiðleikana en ekki bíða eftir að þeir hverfi. Þá þyrfti maður að setja hamingju sína svolítið á bið. Og hvers vegna ætti maður að verða eitthvað frekar hamingjusamari seinna? Verður ekki alltaf eitthvað sem kemur þá í veg fyrir það?
Erfiðleikar eru bara erfiðleikar ef við lítum þannig á þá.
Ef það væri STAÐREYND að vandamál væru erfiðleikar þá mundu allir þjást af hamingjuskorti alltaf. Sumt fólk getur verið ákaflega hamingjusamt þrátt fyrir peningaleysi, svo ekki getur peningaleysi verið raunverulegt vandamál heldur er það viðhorfið sem er raunverulega vandamálið. Hinir raunverulegu erfiðleikar.
Niðurstaða mín í þessu máli er þá sem sagt sú að það er bara til eitt RAUNVERULEGT vandamál í heiminum, einir RAUNVERULEGIR erfiðleikar.
NEIKVÆTT VIÐHORF.
Ef það hrjá þig einhverjir ólæknandi sjúkdómar, þýðir víst lítið að halda að þú verðir ekki hamingjusamur fyrr en þeir hverfa. Ef þú sérð ekki fram á að eiga fyrir skuldunum eða mat næstu árin, þá verður þú ekkert ríkari við að hafa áhyggjur af því.
Hinsvegar er það nú einhvern veginn svo að fólk með jákvætt hugarfar, fólk sem býr við raunverulega hamingju, hefur meira aðdráttarafl en annað fólk. Þá er ég ekki bara að tala um aðdráttarafl gagnvart öðru fólki heldur líka gagnvart öllum hlutum.Jákvætt fólk fær frekar launahækkun, stöðuhækkun, hjálp, finnur minna til og það er vísindalega sannað að jákvæðni getur hjálpað frumum líkamans að endurnýja sig og láta allt virka eins og það á að gera og losa sig við óæskilegar bakteríur, frumumyndanir og úrgangsefni.
Jákvætt viðhorf dregur að fólk með jákvætt viðhorf og hamingjan býr í þakklætinu. Þakkaðu fyrir ALLT sem á daga þína hefur dregið. Án þess værir þú ekki sú manneskja sem þú ert í dag. Ef þú ert ekki ánægður með þá manneskju sem þú hefur að geyma, þakkaðu samt fyrir að vera þú því þú ert sú eina manneskja í öllum heiminum sem getur breytt þér.
Það er ástæða fyrir því að þú komst á bloggið mitt og ert að lesa þetta. Það er ástæða fyrir öllu. Leggstu undir feld og skoðaðu málið.
Ert þú þakklátur fyrir að vera þú eða ertu það ekki? Hver er ástæðan? Fyrir hvað getur þú verið þakklátur? Það er ástæða fyrir því að þú valdir þér þessa foreldra, hvar þú býrð, hvað þú vinnur, Þakkaðu fyrir maka þinn hvernig sem hann er því þú getur lært af honum hvernig manneskja þú vilt vera eða vera ekki. Þakkaðu fyrir börnin þín hvernig sem þau láta því þau kenna þér hvernig manneskja þú ert í raun, þakkaðu fyrir vini þína því þeir spegla þig, þakkaðu fyrir heilsu þína hvernig svo sem hún er því þar er tækifærið grafið til að sjá hvort ég hafi ekki rétt fyrir mér.
Það er ekkert sem heitir góð reynsla eða slæm reynsla, reynsla er bara reynsla og hvort hún er góð eða slæm liggur eingöngu í þínu eigin viðhorfi og hvernig þú ætlar að nota hana. Reynsla hefur engan tilgang ef hún er ekki notuð til gagns. Ég á mér mikla og stóra fortíð eins og þeir sem þekkja mig vita og reynt margt í gegnum tíðina og ég er þakklát því ég er orðin ákaflega sátt við þá manneskju sem ég hef þróast í. Ef ég væri einhver annar, væri ég besta vinkona mín. Getur þú sagt það um þig?
Lífstíll | Breytt 2.6.2011 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)