Hin eilífa bið

Ég fer mjög reglulega í naflskoðun. Það er mér mjög mikilvægt að þekkja sjálfa mig vel. Ég hef jafnvel verið sökuð um það að hugsa of mikið. Ég er því ekki sammála þótt hér áður fyrr hafi ég eytt þessum hugsunum mínum í að velta mér upp úr fortíðinni, reið og full eftirsjár. En ekki lengur.

Hins vegar get ég skoðað líf mitt og metið það á óhlutdrægan hátt, núorðið. Og séð að ég hef eytt tímanum í að bíða. Eftir öllum sköpuðum og ósköpuðum hlutum.

Þegar ég var unglingur eyddi ég þeim árum í að bíða eftir að ég yrði fullorðin. Gat svo ekki beðið lengur, gifti mig og eignaðist fyrsta barnið fyrir tvítugt. Þá tóku við biðir af hinum og þessum toga sem hafa síðan fylgt mér mestalla fullorðinsæfi mína.

Einhverra hluta vegna heldur mannskepnan að hamingjan og lífið komi með hinu og þessu. Það er misjafnt eftir fólki hvað það  er. Sjálf setti ég mína hamingju á pásu þar til ég væri komin með betri íbúð, minna af skuldum, meira af peningum, fleiri tæki, fleiri tól, að ég yrði "uppgötvuð", að börnin yrðu svona eða hinsegin eða gerðu þetta eða hitt. Beið eftir að makinn yrði öðruvísi. Að ég yrði mjó, að ég yrði heilbrigð. Beið eftir vori, sumri, hausti, vetri og jólum. Allan ársins hring, ár eftir ár var bið eftir einhverju. Allt yrði betra ef...ef...ef...

Á meðan ég beið eftir hinu og þessu, liðu 10, 20, 30 ár án þess að ég tæki eftir því eða bara hreinlega væri með.

Lífið sjálft flaut framhjá mér á skútu án þess að ég væri um borð. Ég vaknaði upp, að verða fertug og ákvað að gera eitthvað í málunum.

Flutti  á stúdentagarðana á Ásbrú og fór í skóla. Og komst að því að ég væri alls ekki heimsk þar sem ég tók síðustu tvö árin sem ég átti eftir í framhaldsskóla, á einum vetri. Og komst að því að ég væri bara aldeilis ágætur penni og ýmislegt fleira. Stofnaði blúsband og smáband. Kláraði stúdentspróf og fór síðan í fjarnám í háskóla. Styrkti fjölskylduna, fer einu sinni á ári, barnlaus með manninum mínum á hótel eða í bústað.

Sátt við konuna sem ég er, hætt að bíða og leyfi mér þann munað að vera hamingjusöm í núinu. Þótt ég eigi ekki lengur hús eða nýjustu græjurnar.

Nýt hvers augnabliks með ástvinum mínum því þessi augnablik koma aldrei aftur. Nýt hvers augnabliks með sjálfri mér því ég er að gera það sem mér þykir skemmtilegast í heiminum. Fylgist með hversdagsleikanum af áhuga, því hann er lífið.

Ég er mikill aðdáandi John Lennon og vitna oft í hann þar sem hann hafði mikla visku að geyma. Ég á mér uppáhalds tilvitnun og kemur hún úr texta sem hann samdi til sonar síns Sean. Hún segir í einni setningu það sem ég er búin að skrifa heilan pistil um hér.

Ég ætla að leyfa meistara Lennon að setja lokaorðin :

"Life is what happens to you, while you're busy making other plans"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband