Færsluflokkur: Heimspeki

Hin eilífa bið

Ég fer mjög reglulega í naflskoðun. Það er mér mjög mikilvægt að þekkja sjálfa mig vel. Ég hef jafnvel verið sökuð um það að hugsa of mikið. Ég er því ekki sammála þótt hér áður fyrr hafi ég eytt þessum hugsunum mínum í að velta mér upp úr fortíðinni, reið og full eftirsjár. En ekki lengur.

Hins vegar get ég skoðað líf mitt og metið það á óhlutdrægan hátt, núorðið. Og séð að ég hef eytt tímanum í að bíða. Eftir öllum sköpuðum og ósköpuðum hlutum.

Þegar ég var unglingur eyddi ég þeim árum í að bíða eftir að ég yrði fullorðin. Gat svo ekki beðið lengur, gifti mig og eignaðist fyrsta barnið fyrir tvítugt. Þá tóku við biðir af hinum og þessum toga sem hafa síðan fylgt mér mestalla fullorðinsæfi mína.

Einhverra hluta vegna heldur mannskepnan að hamingjan og lífið komi með hinu og þessu. Það er misjafnt eftir fólki hvað það  er. Sjálf setti ég mína hamingju á pásu þar til ég væri komin með betri íbúð, minna af skuldum, meira af peningum, fleiri tæki, fleiri tól, að ég yrði "uppgötvuð", að börnin yrðu svona eða hinsegin eða gerðu þetta eða hitt. Beið eftir að makinn yrði öðruvísi. Að ég yrði mjó, að ég yrði heilbrigð. Beið eftir vori, sumri, hausti, vetri og jólum. Allan ársins hring, ár eftir ár var bið eftir einhverju. Allt yrði betra ef...ef...ef...

Á meðan ég beið eftir hinu og þessu, liðu 10, 20, 30 ár án þess að ég tæki eftir því eða bara hreinlega væri með.

Lífið sjálft flaut framhjá mér á skútu án þess að ég væri um borð. Ég vaknaði upp, að verða fertug og ákvað að gera eitthvað í málunum.

Flutti  á stúdentagarðana á Ásbrú og fór í skóla. Og komst að því að ég væri alls ekki heimsk þar sem ég tók síðustu tvö árin sem ég átti eftir í framhaldsskóla, á einum vetri. Og komst að því að ég væri bara aldeilis ágætur penni og ýmislegt fleira. Stofnaði blúsband og smáband. Kláraði stúdentspróf og fór síðan í fjarnám í háskóla. Styrkti fjölskylduna, fer einu sinni á ári, barnlaus með manninum mínum á hótel eða í bústað.

Sátt við konuna sem ég er, hætt að bíða og leyfi mér þann munað að vera hamingjusöm í núinu. Þótt ég eigi ekki lengur hús eða nýjustu græjurnar.

Nýt hvers augnabliks með ástvinum mínum því þessi augnablik koma aldrei aftur. Nýt hvers augnabliks með sjálfri mér því ég er að gera það sem mér þykir skemmtilegast í heiminum. Fylgist með hversdagsleikanum af áhuga, því hann er lífið.

Ég er mikill aðdáandi John Lennon og vitna oft í hann þar sem hann hafði mikla visku að geyma. Ég á mér uppáhalds tilvitnun og kemur hún úr texta sem hann samdi til sonar síns Sean. Hún segir í einni setningu það sem ég er búin að skrifa heilan pistil um hér.

Ég ætla að leyfa meistara Lennon að setja lokaorðin :

"Life is what happens to you, while you're busy making other plans"


Hverjum þjónar fyrirgefningin?

Fyrirgefningin kom mér algjörlega á óvart. Þrátt fyrir að ég hefði verið búin að vinna að henni með sjálfri mér í langan tíma. Henni fylgdi ákveðið tómarúm. Hatur mitt hafði búið í hjarta mér í 15 ár og nú var það bara horfið sísvona.

Á þessum 15 árum hafði ég ekki gert neitt við líf mitt. Ekkert sem gæti kannski orðið til þess að hann myndi eftir því að ég var til. Ég var mjög reið og bitur kona og þetta bitnaði á hjónabandi mínu og fjölskyldulífi. Ég var fórnarlamb og fór vel með það hlutverk.

Vitur vinkona sagði mér að kyrja og biðja fyrir hamingju hans. Þetta fannst mér algjörlega út í hött, en þar sem ég fékk þessa leiðsögn frá reyndri og viturri konu sem ég treysti fullkomlega, ákvað ég að reyna þetta.

Ójú, víst var það erfitt til að byrja með. Því mér fannst þessi maður ekki eiga hamingjuna skilið. Að mínu mati mátti hann lifa í óhamingju og kvalræði það sem eftir var. Ef ekki bara detta niður dauður. Hatrið sullaði um í brjósti mér.

Í bænum mínum og hugleiðslu grét ég og orgaði af reiði en píndi mig til að hugsa góðar hugsanir til þessarar mannveru. Eftir nokkur skipti gat ég sagt nafnið hans upphátt og talað um hann. Mér sjálfri fór að líða betur og ég ákvað að gera eitthvað við líf mitt.

Fór í skóla og tók að huga að söngferli mínum. Kom fram í útvarpi og sjónvarpi en það var eitthvað sem mér datt ekki til hugar að gera áður fyrr. Ekkert sem gat beint athygli hans að mér og mínum.

Eftir að hafa kyrjað fyrir honum öðru hverju í heilt ár, kom að því, að einn góðan veðurdag fann ég ekki lengur fyrir þessu nístingskalda hatri sem ég hafði hlúð að öll þessi ár.

Ég veit ekki hvort hann varð eitthvað hamingjusamari við bænir mínar, enda kemur það málinu ekkert við. Ég skildi það núna hvers vegna þessi góða vinkona sagði mér að gera þetta svona. Það var fyrir mig sjálfa.

Ég fann það sterkt að ég var ekki lengur fórnarlamb í lífinu og tók ábyrgð á lífi mínu og líðan. Ég varð sjálfboðaliði í lífinu. Með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir þótt kostirnir séu ívið fleiri.

Enda er besta hefndin sú að fyrirgefa hið ófyrirgefanlega, láta sér líða vel og sýna svo ekki verði um villst að lífið gangi mun betur án þessara einstaklinga.

Fyrirgefning felur ekki í sér hins vegar, samþykki að hinir liðnu atburðir séu teknir góðir og gildir. Heldur eingöngu það að hið liðna muni ekki lengur hafa tangarhald á manni og stjórna lífi manns.

Ég gerði mér grein fyrir að án allrar minnar reynslu væri ég ekki sú kona sem ég er í dag. Og vegna reynslu minnar get ég leiðbeint öðrum líkt og álfadísin mín forðum.

Í dag geri ég það sem mig langar til og mér gengur vel í því. Ég er ekki fórnarlamb eins né neins og alls ekki kringumstæðna. Reynsla mín er mér dýrmæt og ég hefði ekki viljað sleppa henni því ég lærði að vera ég.

Og ég kann nú bara alveg ágætlega við sjálfa mig.

 

 

 


Einveran er gjöf


Stundum er ég einmana. Hvort sem ég er innan um fólk eða ekki. Finn mig ekki tengda þeim. Og hætti að heyra hvað þau segja. Raddir þeirra breytast í skvaldur og hverfa brátt í rykmekki í hugsunum mínum. Ég sting af inn í heiminn minn sem engin fær að sjá. Stundum er hann litríkur, bjartur og fallegur...en stundum er hann myrkur , ljótur og hryllilegur.

Það fer allt eftir því hvernig ég lít á sjálfa mig þann daginn. Hvort ég kýs að vera sjálfsörugg, klár og falleg ...eða hvort ég vel að vera lítil, óörugg, feit og heimsk. Ég tala um að velja sér þessar tilfinningar, af ástæðu. Því það er gerlegt að stjórna þeim. Stundum er bara svolítið notalegt að fá að vera í svolítilli fýlu, við eigum rétt á því. Svo lengi sem við látum það ekki bitna á öðrum. Og rífum okkur upp á hnakkadrambinu í tíma.

Ég er í senn einfari og félagsvera. Mér þykir gott að hitta annað fólk, sérstaklega þegar ég er ekki einmana. Mér finnst nefnilega verra að vera einmana innan um fólk en þegar ég er ein. Ég er ekki alltaf einmana þegar ég er ein með sjálfri mér. Stundum kann ég nógu mikið við sjálfa mig til að finnast ég, vera mér nægur félagsskapur. Og ég get fundið upp á ýmsu til að gera, sem ég hef aftur á móti engan áhuga á þegar mér líður illa af einsemd.

Ég minnist atriðis úr bíómynd, ekkert svakalega góðri bíómynd, en þessi setning festist svolítið á, annars vel teflonhúðuðum, heila mínum. Þar sem tvær vinkonur sitja saman og spjalla í trúnaði um ástarmálin eins og vinkonur gera oft. Önnur einhleyp en vonlaust ástfangin, hin nýgift og segir döpur og með hálfgerðum hryllingi: " Ég verð aldrei framar ein".

Þörf mannsins til að vera nálægt öðru fólki er jafnmikil og þörfin til að vera einn með sjálfum sér. Ég held að nútíminn hafi með öllum sínum tækninýjungum, eyðilagt þessa tilfinningu og æ fleiri verða einmana á bak við tölvuskjái, með heyrnartólin á  eyrunum.

Hversu margir njóta þess raunverulega að vera einir og sinna hugðarefnum sínum sem innifela ekki samskipti við annað fólk? Án þess að verða einmana? Þeir tímar sem við lifum nú eru uppfullir af dagskrá fyrir alla. Börn kunna varla að leika sér lengur, dunda sér, það er orðið bráðnauðsynlegt að fylla alla daga af skipulögðum atburðum. Og þetta er eins með fullorðið fólk. Hver sest niður með bók um miðjan dag eða hlustar á tónlist í friði og spekt? Án þess að fá samviskubit yfir því að vera að "gera ekkert".

Ég er fullviss um að þetta sé hverri manneskju hollt að gera, til að finna aftur kjarnann í sjálfri sér og halda honum gangandi. Við verðum að fylla á til að hafa eitthvað að gefa...og ekki síst fyrir okkur sjálf. Við týnumst annars í hversdagsleikanum þar sem sami endalausi hringurinn er farinn, dag eftir dag, og verkin eru aldrei búin. Tilgangslausar rútínur ef ekki er notið lífsins inn á milli.

Sonur minn sem er á fimmtánda ári, segir mér oft að sér leiðist. Fyrir nokkrum mánuðum, áður enn ég fór að spá í einmitt þetta, svaraði ég honum með allskonar uppástungum um hvað hægt væri að gera. Einn daginn uppgötvaði ég það að það væri allt í lagi að láta sér leiðast. Þetta er eðlileg tilfinning sem mannfólkinu er alveg að takast að útrýma og auka í sömu andrá. Fyrir vikið finnst fólki, þá sérstaklega börnum og unglingum, ekkert vera skemmtilegt. Það er ekkert mótvægi ef þeim á aldrei að leiðast. Allir hlutir renna saman á endanum og gleði mannsins yfir að vera bara til, hverfur. Unga fólkið mun aldrei læra á að hlusta á sína innri rödd og kynnast sjálfu sér ef umhverfið er stútfullt af skemmtidagskrá handa þeim. Þau verða að fá rými til að hafa ofan af fyrir sér sjálf.

Þessi sami sonur minn á sínar stundir samt sem áður. Hann fer einn í göngutúra með myndavél. Yfirleitt kemur hann til baka með skrítnar hugdettur  og heimspekilegar pælingar  sem gaman er að spjalla um og velta fyrir sér. Þetta gerist bara þegar hann hefur fengið að ráfa um einn með sjálfum sér. Aldrei þegar dagurinn hefur verið fullur af tölvuleikjum, sjónvarpsglápi eða annarri dagskrá. Þetta eru þær stundir þar sem ég fæ að kynnast honum. Þegar hann hefur hreinsað hugann af illa matreiddu efni. Þarna glittir þá í soninn sem er svo gaman að spjalla við. Um eitthvað annað en vélmenni, tölvuleikjaheim og anime.

Það er gott að eiga góða að, fjölskyldu og vini, en það jafnast ekki á við þá manneskju sem fylgir þér hvert sem þú ferð æfina á enda. Þú ert eina manneskjan sem mun ávallt vera til staðar fyrir þig.

Gefðu þér því tíma til að kynnast sjálfum þér og hvettu fólkið þitt til þess sama. Leyfðu börnunum að láta sér leiðast, það kemur að því að þau finni sér eitthvað að gera.

En þá eru þau líka búin að eyða dágóðum tíma í allskonar pælingar sem gera ekkert nema þroska þau.

 

 


Lífsýn

Bugaður- Kolla KvaranÉg hef oft spurt mig að því í gegnum tíðina hvort það sé nokkur tilgangur með lífinu. Hef ég einhvern tilgang? Af hverju er ég hér? Og hvað á ég að gera?
Eins og með alla aðra hafa hrjáð mig allskonar krankleikar og vandamálin ætla engan endi að taka, svo hvað er málið?
 
Eftir að hafa legið undir feldi í svolítinn tíma til að hugsa hef ég komið upp með svör sem virka fyrir mig. Það má kalla þetta uppljómun um eigið líf. Ef ég skoða líf mitt , allt sem er að, þá blasir svarið við mér. Tilgangurinn er að sigrast á erfiðleikunum og veikindunum til að geta kennt öðrum hvernig á að gera það. Ég er ekki að tala um að veikindin eða erfiðleikarnir hverfi, ekki þannig sigur, það er oft á tíðum ekki hægt.
 
Heldur að láta ekki bugast, vera hamingjusöm ÞRÁTT fyrir erfiðleikana en ekki bíða eftir að þeir hverfi. Þá þyrfti maður að setja hamingju sína svolítið á bið. Og hvers vegna ætti maður að verða eitthvað frekar hamingjusamari seinna? Verður ekki alltaf eitthvað sem kemur þá í veg fyrir það?
Erfiðleikar eru bara erfiðleikar ef við lítum þannig á þá.

Ef það væri STAÐREYND að vandamál væru erfiðleikar þá mundu allir þjást af hamingjuskorti alltaf. Sumt fólk getur verið ákaflega hamingjusamt þrátt fyrir peningaleysi, svo ekki getur peningaleysi verið raunverulegt vandamál heldur er það viðhorfið sem er raunverulega vandamálið. Hinir raunverulegu erfiðleikar.
Niðurstaða mín í þessu máli er þá sem sagt sú að það er bara til eitt RAUNVERULEGT vandamál í heiminum, einir RAUNVERULEGIR erfiðleikar.
NEIKVÆTT VIÐHORF.

Ef það hrjá þig einhverjir ólæknandi sjúkdómar, þýðir víst lítið að halda að þú verðir ekki hamingjusamur fyrr en þeir hverfa. Ef þú sérð ekki fram á að eiga fyrir skuldunum eða mat næstu árin, þá verður þú ekkert ríkari við að hafa áhyggjur af því.
Hinsvegar er það nú einhvern veginn svo að fólk með jákvætt hugarfar, fólk sem býr við raunverulega hamingju, hefur meira aðdráttarafl en annað fólk. Þá er ég ekki bara að tala um aðdráttarafl gagnvart öðru fólki heldur líka gagnvart öllum hlutum.Jákvætt fólk fær frekar launahækkun, stöðuhækkun, hjálp, finnur minna til og það er vísindalega sannað að jákvæðni getur hjálpað frumum líkamans að endurnýja sig og láta allt virka eins og það á að gera og losa sig við óæskilegar bakteríur, frumumyndanir og úrgangsefni.

Jákvætt viðhorf dregur að fólk með jákvætt viðhorf og hamingjan býr í þakklætinu. Þakkaðu fyrir ALLT sem á daga þína hefur dregið. Án þess værir þú ekki sú manneskja sem þú ert í dag. Ef þú ert ekki ánægður með þá manneskju sem þú hefur að geyma, þakkaðu samt fyrir að vera þú því þú ert sú eina manneskja í öllum heiminum sem getur breytt þér.
Það er ástæða fyrir því að þú komst á bloggið mitt og ert að lesa þetta. Það er ástæða fyrir öllu. Leggstu undir feld og skoðaðu málið.

Ert þú þakklátur fyrir að vera þú eða ertu það ekki? Hver er ástæðan?  Fyrir hvað getur þú verið þakklátur? Það er ástæða fyrir því að þú valdir þér þessa foreldra, hvar þú býrð, hvað þú vinnur, Þakkaðu fyrir maka þinn hvernig sem hann er því þú getur lært af honum hvernig manneskja þú vilt vera eða vera ekki. Þakkaðu fyrir börnin þín hvernig sem þau láta því þau kenna þér hvernig manneskja þú ert í raun, þakkaðu fyrir vini þína því þeir spegla þig, þakkaðu fyrir heilsu þína hvernig svo sem hún er því þar er tækifærið grafið til að sjá hvort ég hafi ekki rétt fyrir mér.

Það er ekkert sem heitir góð reynsla eða slæm reynsla, reynsla er bara reynsla og hvort hún er góð eða slæm liggur eingöngu í þínu eigin viðhorfi og hvernig þú ætlar að nota hana. Reynsla hefur engan tilgang ef hún er ekki notuð til gagns. Ég á mér mikla og stóra fortíð eins og þeir sem þekkja mig vita og reynt margt í gegnum tíðina og ég er þakklát því ég er orðin ákaflega sátt við þá manneskju sem ég hef þróast í. Ef ég væri einhver annar, væri ég besta vinkona mín. Getur þú sagt það um þig?

Búddistasamtök SGI á Íslandi

SGI-Ísland

Samtökin SGI-Ísland (Sokka Gakkai International – Ísland) voru stofnuð hinn 17. júní 1980 og hafa starfað óslitið síðan. Að samtökunum standa rúmlega hundrað manns sem flestir eru búsettir í Reykjavík og nágrenni. Bresku samtökin, SGI-UK (Soka Gakkai International – United Kingdom), hafa stutt íslensku Búddhistasamtökin frá upphafi með margvíslegum hætti.

Kjarninn í starfsemi SGI-Ísland eru fundir sem flestir eru haldnir eru á einkaheimilum. Félagar hafa skipst í hópa eftir búsetu en reynt er að velja þannig í hópana að hvorki of margir né of fáir séu saman í hóp miðað við fund í venjulegri stofu. Haldnir hafa verið undirbúningsfundir, umræðufundir og fræðslufundir í hverjum mánuði. Á fundum eru gerð sameiginleg gongyo  en síðan fjallað um þau mál sem eru á dagskrá viðkomandi fundar. Í lok funda eru jafnan almennar umræður.

Kosen rufu gongyo, sameiginlegt gongyo tileinkað friði í víðtækustu merkingu, hefur verið fastur liður í starfsemi SGI-Ísland. Kosen rufu gongyo eru fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.

SGI-Ísland hefur árlega staðið fyrir námskeiðum sem venjulega hafa verið haldin í september. Þá hafa leiðtogar komið erlendis frá, haldið fyrirlestra og svarað fyrirspurnum. Venjulega hefur SGI-Ísland staðið fyrir svonefndum vinadegi ár hvert og hefur hann verið haldinn á miðju sumri

SOKA GAKKAI INTERNATIONAL

Soka Gakkai International, SGI, eru samtök leikmanna og byggja þau starfsemi sína á kenningum Nichiren Daishonin (1222-1282). Þau voru stofnuð af fyrsta forseta þeirra, Tsunesaburo Makiguchi, árið 1930 í Japan, í þeim tilgangi að útbreiða búddisma Nichiren Daishonin meðal venjulegra þjóðfélagsþegana. Samtökin hafa á síðustu 60 árum breiðst hratt og örugglega um víða veröld og undir forystu Makiguchi, Josei Toda og Daisaku Ikeda hafa þau öðlast virðingu í hugum þjóðhöfðingja og forsvarsmanna fjölda þjóða.

Árið 1975 var Soka Gakkai International (alþjóðleg samtök Soka Gakkai) stofnað. Daisaku Ikeda var gerður að forseta SGI strax við stofnun þeirra og gegnir hann því embætti enn. Ikeda hefur ferðast um allan heim, átt viðræður við fjöldann allan af fræði- og vísindamönnum og hafa umræðuefnin verið óþrjótandi. Menning, listir, friður, menntun, umhverfismál - allt sem snertir lífið hér á jörð og í alheimi. Lífsskoðanir Ikeda þykja undraverðar, svo lausar við neikvæðni og fordóma, fullar af von og mannúð. Þannig hefur Ikeda skapað samtökunum virðingu og vakið fólks um frið á 21. öldinni. Nú eru 25-30 milljónir manna og kvenna sem fylkja sér undir fána SGI í yfir 120 þjóðlöndum og tekið hafa ákvörðun um að fylgja þeirri friðar- og mannúðarhreyfingu sem SGI er.

Soka Gakkai þýðir "verðmætaskapandi samtök". Nafnið endurspeglar þá staðreynd að tilgangur með ástundun búddisma Nichiren Daishonin er að þroska með hverjum einstaklingi visku, kjark, umhyggju og kraft til að skapa verðmæti í öllu sínu starfi í þjóðfélaginu í heild.

Tilgangur Soka Gakkai International er:

A) Að stuðla að friði, menntun, menningu um alla jörð, sem grundvallast á búddisma Nichiren Daishonin.

B) Að stuðla að alheimsfriði, sérstaklega eð því að styrkja tengsl meðal venjulegra þjóðfélagsþegna hinna ýmsu landa um víða veröld.

C) Að breiða út fræðslu og iðkun búddisma Nichiren Daishonin sem kunngerir algjöra friðarstefnu. Að vinna að þessum grundvallarmarkmiðum sem framúrskarandi þjóðfélagsþegnar í samræmi við menningu og lög hvers lands fyrir sig.

Tilgangur samtakanna er því að tryggja trúarleg tengsl sem ná yfir alla jörðina og viðhalda kenningum Nichiren Daishonin hreinum, svo og að hjálpa öðrum meðlimum til að ástunda á réttan hátt. Með þessu skapast hin mesta hamingja og verðmæti fyrir sjálfa meðlimina og aðra. Samtökin hafa breiðst út til rúmlega 120 landa síðan þau voru stofnuð árið 1930. Starfsemi þeirra snertir marga þætti þjóðfélagsins, en aðallega hafa þau starfað í þágu friðar, menntunar og menningar. Fjöldi stofnana hafa risið á vegum SGI Má þar nefna Stofnun um austurlenska heimspeki, Min On tónlistarsamtökin, Komeito (stjórnmálaflokkur í Japan), Soka University (háskóli), FujiJapan. Á undanförnum árum hafa einnig risið á vegum SGI ýmiss konar skólar og listasöfn í öðrum löndum. Má þar nefna austurlenskt listasafn í Taplow Court á Englandi, Soka University of Los Angeles (Sula háskólinn) og Victor Hugo bókmenntasafnið sem staðsett er rétt fyrir utan París í Frakklandi. museum (listasafn) og Soka Women college (menntaskóli fyrir stúlkur).

 

Daisaku Ikeda

Daisaku Ikeda hefur verið forseti SGI frá upphafi (1975) en hann var áður forseti Soka Gakkai í Japan frá árinu 1960. Ikeda er fæddur í Omori, Tokyo, 2. janúar 1928. Hann er yngstur fimm bræðra en faðir hans ræktaði söl sem notuð var til manneldis. Ikeda segir að ringulreið hafi stöðugt ríkt á æskudögum sínum vegna ógna stríðsins. Hann þjáðist jafnframt af berklum og fátæktin var mikil hjá fjölskyldu hans. Tólf ára gamall hætti Ikeda í skóla vegna þessara erfiðu kringumstæðna. Þrátt fyrir stutta skólagöngu hefur Ikeda allt frá ungaaldri lagt stund á sjálfsnám og lesið hefur hann meira en margir aðrir menn. Hann hefur skrifað fjöldann allan af bókum; skáldsögum, fræðibókum og ljóðum. Þannig hefur hann snert hjörtu fólks um allan heim.

Sá maður sem mest áhrif hefur haft á Daisaku Ikeda er vafalaust meistari hans Josei Toda, II. forseti Soka Gakkai. Þeir hittust á fyrsta umræðufundinum sem Ikeda sótti innan samtakanna. Næstu ellefu árin studdi og fræddi Toda hinn unga nemanda sinn og undirbjó hann undir hið mikla hlutverk, að verða meistari kosen-rufu hér á þessari jörð.

Á þessum árum tókst Ikeda, með stöðugri iðkun, að ná aftur heilsu og verða öruggur og djúpvitur maður. Hann hefur ferðast til rúmlega 70 landa með það markmið í huga að sá fræi hins sanna búddisma, bæði með því að hvetja meðlimi, og ræða við áhrifamikla og virta menn. Mörg af þessum samtölum hafa verið gefin út, t.d. samtöl við Dr. Arnold Toynbee (Choose life) og Dr. Brian Wilson (Human values in a changing world). Þekktasta verk Ikeda er þó The Human Revolution, sem fjallar um fyrstu áratugina í sögu Soka Gakkai og komið hefur út á fjölmörgum tungumálum.

Ikeda hefur hlotið fjölda viðurkenninga og heiðursnafnbóta víða um heim. Hæst ber þar friðarverðlaun Sameinuðu þjóðanna, en þau hlaut hann í ágúst 1983 fyrir störf sín í þágu friðar og menningar. Störf hans eru ómetanleg og nafn hans verður án efa varðveitt á blöðum sögunnar.

En hvaða þörf hafa fylgendur Nichiren Daishonin fyrir slík samtök? Í leiðsögn sem Ikeda gaf meðlimum á ráðstefnu (Afríka-Evrópa) í París 6. júní 1987 segir hann:

"Samtök okkar eru lífsnauðsynleg.

Kosen rufu (alheimsfriður) mun breiðast út á 10 þúsund árum á síðari dögum lögmálsins. Þegar við hugsum um kosen rufu í framtíðinni finn ég mig knúinn til að leggja áherslu á mikilvægi þess að þið gerið ykkur grein fyrir því að hið mikla flæði samtaka okkar er algerlega lífsnauðsynlegt til að auðga störf okkar, vaxa í trú og gera okkar eigin manneskjubyltingu.

Með tímanum, þegar kosen rufu er orðið að veruleika, má vera að við þurfum engin samtök lengur. Þangað til verðum við hins vegar að sækja fram til kosen rufu með því að byggja upp hæf, viðeigandi samtök, því það eru störf okkar innan samtakanna sem raunverulega breyta okkar samfélagi. Þess vegna er nauðsynlegt í hverju landi fyrir sig að byggja upp samtök sem hæfa vel staðnum og tímanum. Einnig verðum við að sníða samtökin að því stigi sem þau eru í hreyfingunni í átt til kosen rufu í landi okkar. Samtökin sem nú eru að byggjast upp í hverju einstöku landi virðast smá í augnablikinu. En þau munu án efa mynda smárennsli sem síðan munu vaxa í stórkostlegar ár kosen rufu í framtíðinni.

Ég er meðvitaður um það að sumu fólki finnst það muni tapa frelsinu ef það tilheyrir samtökum, vegna þess að það muni verða háð þeim. Ég verð samt sem áður að segja að þetta sama fólk lítur aðeins á eitt sjónarhorn varðandi samtökin. Þið getið ekki ástundað trúna fullkomlega án samtakanna. Ef þið útbreiðið þessa trú ein munið þið örugglega slaka á varðandi veikleika ykkar og ástundun ykkar mun smám saman einkennast af sjálfbirgingshætti. Ef þetta gerist getið þið ekki lengur þroskað ykkur sjálf né þróað sterkan hreinan anda innra með ykkur, því þetta er röng aðferð ástundunar. Eina leiðin til að efla lífskraft ykkar er gegnum samskipti við alls konar fólk með með viðleitni ykkar til að uppörva hvert annað getið þið vaxið í trúnni. Í þessu liggur stórkostleiki samtaka okkar.

Í Gosho, "Um blóm og fræ", segir Nichiren Daishonin: "Ef uppsprettan er óþrjótandi mun fljótið aldrei þorna upp". Á sama hátt eruð þið, hvert í sínu landi, hin göfuga uppspretta, þaðan sem straumurinn til kosen rufu mun endalaust renna. Hvort straumur kosen rufu í ykkar landi mun vaxa í kraftmikið stórkostlegt vatnsfall eða þorna upp, ákvarðast af styrk ykkar og starfsemi ykkar innan samtakanna. Með tilliti til þess, bið ég ykkur að vera viss um að hvert ykkar hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna við að koma á friði og grósku í landi ykkar í framtíðinni.

Eining er grundvöllurinn að hinni kraftmiklu framsókn hreyfingar okkar. Án einingar getið þið ekki starfað sem hið kraftmikla flæði til kosen rufu. Ég vona að þið getið alltaf umborið veikleika hvers annars og jafnframt því horft sérstaklega á hvers annars sterku hliðar. Á þann hátt getið þið skapað sterkt og öruggt flæði kosen rufu og í samstillingu skapað Itai dosin."

(Þýtt úr leiðsögn Daisaku Ikeda)

Í þessum orðum Ikeda Sensei er raunverulega allt að finna sem varðar nauðsyn þess að hafa samtök. Ef við ætlum að viðhalda hreini og sterkri trú verðum við að starfa í samtökum. Öll störf okkar fyrir samtökin munu skila sér í gæfu og hamingju okkur til handa. Í búddisma Nichiren Daishonin eru engar fórnir. Í ljósi lögmáls orsaka og afleiðinga er öll okkar viðleitni í þágu kosen rufu einungis inneign á reikning lífs okkar. Oft og tíðum sjáum við ekki stórfengleika samtaka okkar, tökum þau sem sjálfsagðan hlut, líkt og maðurinn sem tekur ekki eftir fegurð heimalands síns fyrr en hann hefur verið langtímum saman að heiman. Við ættum að þakka Gohonzon á hverjum degi fyrir samtökin okkar, þakka Sensei fyrir störf sín í þágu SGI og reyna að finna djúpt í hjörtum okkar hve gæfusöm við erum að tilheyra slíkum samtökum.

Soka Gakkai International starfar í þágu friðar, menntunar og menningar. Sensei segir að kosen rufu (alheimsfriður) sé m.a. hið hreina samband frá hjarta til hjarta og fátt snertir hjarta manneskju meira en fagrar listir. Á sunnudaginn hlustaði ég á kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórinn og Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólans flytja stórfenglegt tónverk eftir Benjamin Britten (1913-1976). Þá skildi ég hvað Ikeda Sensei á við. Að hlusta á 125 ungmenni syngja af slíkri snilld snerti virkilega streng í hjarta mínu og ég skynjaði búddaeðli þeirra í hverjum tóni. Það er á þennan hátt sem við getum hvert og eitt okkar, þjálfað okkur í að brjótast út úr fjötrum feimni og óöryggis og snert strengi í hjörtum fólks með þeim listrænu hæfileikum sem í hverju og einu okkar búa. Til þess þurfum við samtökin.

Fólk þráir frið framar öllu öðru. Draumar þess eru að menning heimsins megi blómstra í jarðvegi varanlegs friðar. Það þráir jafnframt að lifa hamingjusömu lífi allt til enda. Við sem höfum tekið að okkur að koma á alheimsfriði getum það aðeins með hjálp samtakanna. Þegar við eru djúpt sokkin í gagnrýni hvert á annað, á leiðtogana okkar og samtökin í heild, ættum við að rifja upp tilgang þeirra og markmið. Margir fræðimenn um víða veröld trúa því að SGI hafi nú þegar hafið göngu sem opna muni veröldinni dyr að mannúð og séu í raun alheimssamtök. - - - Ég er fullviss um það að ef við fjarlægjumst samtökin og missum sjónir á stórfengleika þeirra, mun trú okkar dvína.

Soka Gakkai leggur sig fram við að láta manneskjunni í té andlega næringu. Ikeda Sensei hefur svo sannarlega lagt sig allan fram við að gefa fólki þá andlegu næringu sem það þarf. Kazuo Fuji (varaleiðtogi bresku samtakanna, SGI-UK) skrifaði í málgagn þeirra 1992: "Þegar 21. öldin gengur í garð mun SGI hreyfingin verða nægilega sterk til að koma í veg fyrir stríð". Við sjáum mjög víða áhrif SGI hjá forystumönnum fjölmennustu þjóða heims. Má þar nefna að í sigurræðu sinni sagði Bill Clinton, þá nýkjörin forseti Bandaríkjanna: "21. öldin er öld friðar og mannúðar, öld breytinga og nýrra tíma, þar sem andleg verðmæti verða sett ofar öðru."

Ég get ekki látið hjá líða að nefna eitt afar mikilvægt atriði varðandi samtök okkar. Við erum öll mannleg og gerum mistök. Við verðum að temja okkur það viðhorf að leyfa hvert öðru að gera mistök. Ef við ekki gerum það rífum við okkar eigin trú niður innan frá, verðum gagnrýnin - og að lokum getum við átt á hættu að fjarlægjast samtökin og fyrr en varir er trú okkar á hinar stórkostlegu kenningar Nichiren Daishonin einnig að fjarlægjast hjörtu okkar.

Að lokum langar mig að vitna í Gosho þar sem Nichiren Daishonin segir: "En sú gleði að vera fæddur á síðari dögum lögmálsins og vera þátttakandi í útbreiðslu hins sanna búddisma. Hversu aumkunarverðir eru þeir, sem þrátt fyrir að vera fæddir á þessum tíma, geta ekki trúað á Lótus sútruna". (Bréf til Nike, I. hefti, bls. 253)

Úr fyrirlestri eftir Magneu Reynaldsdóttur

Yfirfarið af þýðingarnefnd SGI-Ísland

(Fyrirlesturinn var fluttur í nóvember 1992)

 


Nam myoho renge kyo


Viðhorf

Ég hef oft spurt mig að því í gegnum tíðina hvort það sé nokkur tilgangur með lífinu. Hef ég einhvern tilgang? Af hverju er ég hér? Og hvað á ég að gera?
Eins og með alla aðra hafa hrjáð mig allskonar krankleikar og vandamálin ætla engan endi að taka, svo hvað er málið? Eftir að hafa legið undir feldi í svolítinn tíma til að hugsa hef ég komið upp með svör sem virka fyrir mig. Það má kalla þetta uppljómun um eigið líf. Ef ég skoða líf mitt , allt sem er að, þá blasir svarið við mér. Tilgangurinn er að sigrast á erfiðleikunum og veikindunum til að geta kennt öðrum hvernig á að gera það. Ég er ekki að tala um að veikindin eða erfiðleikarnir hverfi, ekki þannig sigur, það er oft á tíðum ekki hægt.
 Heldur að láta ekki bugast, vera hamingjusöm ÞRÁTT fyrir erfiðleikana en ekki bíða eftir að þeir hverfi. Þá þyrfti maður að setja hamingju sína svolítið
á bið. Og hvers vegna ætti maður að verða eitthvað frekar hamingjusamari seinna? Verður ekki alltaf eitthvað sem kemur þá í veg fyrir það?
Erfiðleikar eru bara erfiðleikar ef við lítum þannig á þá.

Ef það væri STAÐREYND að vandamál væru erfiðleikar þá mundu allir þjást af hamingjuskorti alltaf. Sumt fólk getur verið ákaflega hamingjusamt þrátt fyrir peningaleysi, svo ekki getur peningaleysi verið raunverulegt vandamál heldur er það viðhorfið sem er raunverulega vandamálið. Hinir raunverulegu erfiðleikar.
Niðurstaða mín í þessu máli er þá sem sagt sú að það er bara til eitt RAUNVERULEGT vandamál í heiminum, einir RAUNVERULEGIR erfiðleikar.
NEIKVÆTT VIÐHORF.

Ef það hrjá þig einhverjir ólæknandi sjúkdómar, þýðir víst lítið að halda að þú verðir ekki hamingjusamur fyrr en þeir hverfa. Ef þú sérð ekki fram á að eiga fyrir skuldunum eða mat næstu árin, þá verður þú ekkert ríkari við að hafa áhyggjur af því.
Hinsvegar er það nú einhvern veginn svo að fólk með jákvætt hugarfar, fólk sem býr við raunverulega hamingju, hefur meira aðdráttarafl en annað fólk. Þá er ég ekki bara að tala um aðdráttarafl gagnvart öðru fólki heldur líka gagnvart öllum hlutum.Jákvætt fólk fær frekar launahækkun, stöðuhækkun, hjálp, finnur minna til og það er vísindalega sannað að jákvæðni getur hjálpað frumum líkamans að endurnýja sig og láta allt virka eins og það á að gera og losa sig við óæskilegar bakteríur, frumumyndanir og úrgangsefni.

Jákvætt viðhorf dregur að fólk með jákvætt viðhorf og hamingjan býr í þakklætinu. Þakkaðu fyrir ALLT sem á daga þína hefur dregið. Án þess værir þú ekki sú manneskja sem þú ert í dag. Ef þú ert ekki ánægður með þá manneskju sem þú hefur að geyma, þakkaðu samt fyrir að vera þú því þú ert sú eina manneskja í öllum heiminum sem getur breytt þér.
Það er ástæða fyrir því að þú komst á bloggið mitt og ert að lesa þetta. Það er ástæða fyrir öllu. Leggstu undir feld og skoðaðu málið.

Ert þú þakklátur fyrir að vera þú eða ertu það ekki? Hver er ástæðan?  Fyrir hvað getur þú verið þakklátur? Það er ástæða fyrir því að þú valdir þér þessa foreldra, hvar þú býrð, hvað þú vinnur, Þakkaðu fyrir maka þinn hvernig sem hann er því þú getur lært af honum hvernig manneskja þú vilt vera eða vera ekki. Þakkaðu fyrir börnin þín hvernig sem þau láta því þau kenna þér hvernig manneskja þú ert í raun, þakkaðu fyrir vini þína því þeir spegla þig, þakkaðu fyrir heilsu þína hvernig svo sem hún er því þar er tækifærið grafið til að sjá hvort ég hafi ekki rétt fyrir mér.

Það er ekkert sem heitir góð reynsla eða slæm reynsla, reynsla er bara reynsla og hvort hún er góð eða slæm liggur eingöngu í þínu eigin viðhorfi og hvernig þú ætlar að nota hana. Reynsla hefur engan tilgang ef hún er ekki notuð til gagns. Ég á mér mikla og stóra fortíð eins og þeir sem þekkja mig vita og reynt margt í gegnum tíðina og ég er þakklát því ég er orðin ákaflega sátt við þá manneskju sem ég hef þróast í. Ef ég væri einhver annar, væri ég besta vinkona mín. Getur þú sagt það um þig?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband