11 heilræði til að gera gott samband betra
25.3.2011 | 21:35
Margir telja að hæfilega mikið af rifrildum og deilum séu heilbrigður þáttur í sambandi tveggja ólíkra einstaklinga. Þessu er ég algjörlega ósammála. Rifrildi para verður til þegar báðir aðilar vilja ráða ferðinni án málamiðlana og reyna að spila með tilfinningar hins aðilans með reiði og hækkuðum rómi. Við hjónin höfum aldrei rifist vegna þess að við höfum ekki þörf fyrir það. Við erum alls ekki alltaf sammála en það þarf ekki að kosta rifrildi.
Hér koma nokkur heilræði til að gera gott samband betra :
1. Seldu King size rúmið og fáðu þér minna.
Af eigin reynslu veit ég það að par sem á stórt rúm, sefur á sitthvorri rúmbríkinni með haf og lönd á milli sín. Fyrra hjónaband mitt fór ekki að dala fyrr enn við fengum okkur King size....skeiðvöllur í fyrstu en það breyttist fljótlega í "minn helmingur og þinn helmingur". Nú sofum við, núverandi maðurinn minn og ég, í 140 cm breiðu rúmi og öryggistilfinningin sem fylgir því að finna alltaf fyrir maka sínum yfir nóttina er yndisleg.
2. Settu sængurnar í gestaherbergið og fáðu þér eina stóra.
Það er ekki hægt að fara ósáttur í rúmið þegar sofið er undir einni sæng. Það auðveldar líka öll önnur "samskipti" í bælinu. Í litlu rúmi, undir einni sæng, er hveitibrauðsdaga-tilfinningin ótrúlega lífseig.
3. Eyðið að minnsta kosti hálftíma um miðjan dag á frídögum til að liggja bara og kúra.
Þarna er mjög mikilvægt að ræða ekki áhyggjur og fjármál. Þær umræður eiga ekki heima í svefnherberginu. Þessar stundir eiga að vera bara um ykkur tvö, koddahjal og kitlur. Kitlur eru mjög mikilvægar.
4. Að hjálpast að við eldamennskuna og frágang.
Fátt færir par nær hvort öðru í hversdagsleikanum, heldur en að vera saman í því að næra fjölskylduna, hversu stór eða lítil hún kann að vera. Það skiptir engu máli þótt annar aðilinn kunni ekkert að elda, hann/hún getur samt aðstoðað. Þetta býður líka upp á að talað sé meira saman heldur en ella.
5. Eyðið kvöldunum saman og veitið hvort öðru athygli.
Hver er tilgangurinn með því að búa með einhverjum ef þið hittist bara í matartímanum og svo þegar farið er að sofa? Ef vinna eða skóli krefst þess að þið eruð eitthvað upptekin á kvöldin við tölvuna eða annað, reynið þá að taka frá síðasta klukkutímann, áður enn farið er að sofa, fyrir hvort annað og takið hugann frá verkefnunum. Kúr fyrir framan sjónvarpið getur virkað sem hinn besti forleikur. Það er ekki sexý að sitja í sitthvoru herberginu allt kvöldið og ætlast svo til að makinn sé til í tuskið þegar makinn hefur ekki fengið neina athygli í marga klukkutíma.
6. Ekki halda framhjá makanum með tölvunni.
Ef þú ert að vinna í tölvunni er alveg bráðnauðsynlegt að standa öðru hverju upp, læðast aftan að makanum og kyssa hann á hálsinn. Því á auðvitað að fylgja játning á því hversu miklu betra væri að eyða tímanum með makanum heldur enn tölvunni. Tölvuleikir eru algjört nónó nema þið séuð að spila saman í Playstation eða Nintendo. Tölvuleikir sem hannaðir eru fyrir einn, voru sennilega búnir til af skilnaðarlögfræðingum. Ekki eyða miklum tíma í svoleiðis þegar báðir aðilar eru heima.
7. Ef þú finnur fyrir pirringi, dragðu þig í hlé í smástund.
Það er mikill kostur hjá fólki sem getur hugsað fyrst og talað síðan. Óhugsaðar línur geta orðið til mikilla vandræða og stórskemmt sambandið. Hlutir sem sagðir eru í reiði eða pirringi eru yfirleitt ekki úthugsaðir.
8. Viðurkenndu það þegar þú hefur rangt fyrir þér.
Það segir sig nú sjálft að deilur eru sjálfdauðar þegar þetta kemur upp á yfirborðið. Þú ert ekki minni manneskja fyrir vikið heldur þveröfugt. Manneskja sem getur viðurkennt að hafa rangt fyrir sér hefur líka meiri tíma fyrir líf og gleði heldur en sú sem aldrei getur það og er föst í köngulóarvef þvermóðskunnar.
9. Lærðu að miðla málum.
Þar sem sambúð og heimilisrekstur er svolítið líkt því að reka fyrirtæki og eins og sæmilegir stjórnendur vita þá er í mörg horn að líta. Mismunandi skoðanir tveggja ólíkra einstaklinga eru óhjákvæmilegar á mörgum sviðum. Og þá er um að gera að mastera listina að miðla málum. Ég efast um að þegar þið byrjuðuð sambúðina upphaflega þá hafið þið hvort um sig hugsað sér að ráða öllu, sigra allar deilur, hafa alltaf rétt fyrir ykkur. Þetta er ekki keppni. Og því fyrr sem þið gerið ykkur grein fyrir því því lengri hamingju stundir eigið þið.
10. Finnið sameiginlegan flöt í lífinu.
Að eiga sameiginleg markmið eða áhugamál er eitt af því sem er í "mikilvægu reglunum". Reynið eins og þið getið að finna eitthvað sem getur sameinað ykkur utan svefnherbergisins. Þið verðið að geta rætt um fleira en skuldir og laun, annars er mun vandasamara að halda utan um sambúðina.
11. Játaðu ást þína á hverjum degi.
Þótt þessi sé listuð númer ellefu hérna þá er hún númer eitt í raunveruleikanum. Hún var sett hérna neðst til þess að þú myndir hana lengur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.