Búddistasamtök SGI á Íslandi

SGI-Ísland

Samtökin SGI-Ísland (Sokka Gakkai International – Ísland) voru stofnuð hinn 17. júní 1980 og hafa starfað óslitið síðan. Að samtökunum standa rúmlega hundrað manns sem flestir eru búsettir í Reykjavík og nágrenni. Bresku samtökin, SGI-UK (Soka Gakkai International – United Kingdom), hafa stutt íslensku Búddhistasamtökin frá upphafi með margvíslegum hætti.

Kjarninn í starfsemi SGI-Ísland eru fundir sem flestir eru haldnir eru á einkaheimilum. Félagar hafa skipst í hópa eftir búsetu en reynt er að velja þannig í hópana að hvorki of margir né of fáir séu saman í hóp miðað við fund í venjulegri stofu. Haldnir hafa verið undirbúningsfundir, umræðufundir og fræðslufundir í hverjum mánuði. Á fundum eru gerð sameiginleg gongyo  en síðan fjallað um þau mál sem eru á dagskrá viðkomandi fundar. Í lok funda eru jafnan almennar umræður.

Kosen rufu gongyo, sameiginlegt gongyo tileinkað friði í víðtækustu merkingu, hefur verið fastur liður í starfsemi SGI-Ísland. Kosen rufu gongyo eru fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.

SGI-Ísland hefur árlega staðið fyrir námskeiðum sem venjulega hafa verið haldin í september. Þá hafa leiðtogar komið erlendis frá, haldið fyrirlestra og svarað fyrirspurnum. Venjulega hefur SGI-Ísland staðið fyrir svonefndum vinadegi ár hvert og hefur hann verið haldinn á miðju sumri

SOKA GAKKAI INTERNATIONAL

Soka Gakkai International, SGI, eru samtök leikmanna og byggja þau starfsemi sína á kenningum Nichiren Daishonin (1222-1282). Þau voru stofnuð af fyrsta forseta þeirra, Tsunesaburo Makiguchi, árið 1930 í Japan, í þeim tilgangi að útbreiða búddisma Nichiren Daishonin meðal venjulegra þjóðfélagsþegana. Samtökin hafa á síðustu 60 árum breiðst hratt og örugglega um víða veröld og undir forystu Makiguchi, Josei Toda og Daisaku Ikeda hafa þau öðlast virðingu í hugum þjóðhöfðingja og forsvarsmanna fjölda þjóða.

Árið 1975 var Soka Gakkai International (alþjóðleg samtök Soka Gakkai) stofnað. Daisaku Ikeda var gerður að forseta SGI strax við stofnun þeirra og gegnir hann því embætti enn. Ikeda hefur ferðast um allan heim, átt viðræður við fjöldann allan af fræði- og vísindamönnum og hafa umræðuefnin verið óþrjótandi. Menning, listir, friður, menntun, umhverfismál - allt sem snertir lífið hér á jörð og í alheimi. Lífsskoðanir Ikeda þykja undraverðar, svo lausar við neikvæðni og fordóma, fullar af von og mannúð. Þannig hefur Ikeda skapað samtökunum virðingu og vakið fólks um frið á 21. öldinni. Nú eru 25-30 milljónir manna og kvenna sem fylkja sér undir fána SGI í yfir 120 þjóðlöndum og tekið hafa ákvörðun um að fylgja þeirri friðar- og mannúðarhreyfingu sem SGI er.

Soka Gakkai þýðir "verðmætaskapandi samtök". Nafnið endurspeglar þá staðreynd að tilgangur með ástundun búddisma Nichiren Daishonin er að þroska með hverjum einstaklingi visku, kjark, umhyggju og kraft til að skapa verðmæti í öllu sínu starfi í þjóðfélaginu í heild.

Tilgangur Soka Gakkai International er:

A) Að stuðla að friði, menntun, menningu um alla jörð, sem grundvallast á búddisma Nichiren Daishonin.

B) Að stuðla að alheimsfriði, sérstaklega eð því að styrkja tengsl meðal venjulegra þjóðfélagsþegna hinna ýmsu landa um víða veröld.

C) Að breiða út fræðslu og iðkun búddisma Nichiren Daishonin sem kunngerir algjöra friðarstefnu. Að vinna að þessum grundvallarmarkmiðum sem framúrskarandi þjóðfélagsþegnar í samræmi við menningu og lög hvers lands fyrir sig.

Tilgangur samtakanna er því að tryggja trúarleg tengsl sem ná yfir alla jörðina og viðhalda kenningum Nichiren Daishonin hreinum, svo og að hjálpa öðrum meðlimum til að ástunda á réttan hátt. Með þessu skapast hin mesta hamingja og verðmæti fyrir sjálfa meðlimina og aðra. Samtökin hafa breiðst út til rúmlega 120 landa síðan þau voru stofnuð árið 1930. Starfsemi þeirra snertir marga þætti þjóðfélagsins, en aðallega hafa þau starfað í þágu friðar, menntunar og menningar. Fjöldi stofnana hafa risið á vegum SGI Má þar nefna Stofnun um austurlenska heimspeki, Min On tónlistarsamtökin, Komeito (stjórnmálaflokkur í Japan), Soka University (háskóli), FujiJapan. Á undanförnum árum hafa einnig risið á vegum SGI ýmiss konar skólar og listasöfn í öðrum löndum. Má þar nefna austurlenskt listasafn í Taplow Court á Englandi, Soka University of Los Angeles (Sula háskólinn) og Victor Hugo bókmenntasafnið sem staðsett er rétt fyrir utan París í Frakklandi. museum (listasafn) og Soka Women college (menntaskóli fyrir stúlkur).

 

Daisaku Ikeda

Daisaku Ikeda hefur verið forseti SGI frá upphafi (1975) en hann var áður forseti Soka Gakkai í Japan frá árinu 1960. Ikeda er fæddur í Omori, Tokyo, 2. janúar 1928. Hann er yngstur fimm bræðra en faðir hans ræktaði söl sem notuð var til manneldis. Ikeda segir að ringulreið hafi stöðugt ríkt á æskudögum sínum vegna ógna stríðsins. Hann þjáðist jafnframt af berklum og fátæktin var mikil hjá fjölskyldu hans. Tólf ára gamall hætti Ikeda í skóla vegna þessara erfiðu kringumstæðna. Þrátt fyrir stutta skólagöngu hefur Ikeda allt frá ungaaldri lagt stund á sjálfsnám og lesið hefur hann meira en margir aðrir menn. Hann hefur skrifað fjöldann allan af bókum; skáldsögum, fræðibókum og ljóðum. Þannig hefur hann snert hjörtu fólks um allan heim.

Sá maður sem mest áhrif hefur haft á Daisaku Ikeda er vafalaust meistari hans Josei Toda, II. forseti Soka Gakkai. Þeir hittust á fyrsta umræðufundinum sem Ikeda sótti innan samtakanna. Næstu ellefu árin studdi og fræddi Toda hinn unga nemanda sinn og undirbjó hann undir hið mikla hlutverk, að verða meistari kosen-rufu hér á þessari jörð.

Á þessum árum tókst Ikeda, með stöðugri iðkun, að ná aftur heilsu og verða öruggur og djúpvitur maður. Hann hefur ferðast til rúmlega 70 landa með það markmið í huga að sá fræi hins sanna búddisma, bæði með því að hvetja meðlimi, og ræða við áhrifamikla og virta menn. Mörg af þessum samtölum hafa verið gefin út, t.d. samtöl við Dr. Arnold Toynbee (Choose life) og Dr. Brian Wilson (Human values in a changing world). Þekktasta verk Ikeda er þó The Human Revolution, sem fjallar um fyrstu áratugina í sögu Soka Gakkai og komið hefur út á fjölmörgum tungumálum.

Ikeda hefur hlotið fjölda viðurkenninga og heiðursnafnbóta víða um heim. Hæst ber þar friðarverðlaun Sameinuðu þjóðanna, en þau hlaut hann í ágúst 1983 fyrir störf sín í þágu friðar og menningar. Störf hans eru ómetanleg og nafn hans verður án efa varðveitt á blöðum sögunnar.

En hvaða þörf hafa fylgendur Nichiren Daishonin fyrir slík samtök? Í leiðsögn sem Ikeda gaf meðlimum á ráðstefnu (Afríka-Evrópa) í París 6. júní 1987 segir hann:

"Samtök okkar eru lífsnauðsynleg.

Kosen rufu (alheimsfriður) mun breiðast út á 10 þúsund árum á síðari dögum lögmálsins. Þegar við hugsum um kosen rufu í framtíðinni finn ég mig knúinn til að leggja áherslu á mikilvægi þess að þið gerið ykkur grein fyrir því að hið mikla flæði samtaka okkar er algerlega lífsnauðsynlegt til að auðga störf okkar, vaxa í trú og gera okkar eigin manneskjubyltingu.

Með tímanum, þegar kosen rufu er orðið að veruleika, má vera að við þurfum engin samtök lengur. Þangað til verðum við hins vegar að sækja fram til kosen rufu með því að byggja upp hæf, viðeigandi samtök, því það eru störf okkar innan samtakanna sem raunverulega breyta okkar samfélagi. Þess vegna er nauðsynlegt í hverju landi fyrir sig að byggja upp samtök sem hæfa vel staðnum og tímanum. Einnig verðum við að sníða samtökin að því stigi sem þau eru í hreyfingunni í átt til kosen rufu í landi okkar. Samtökin sem nú eru að byggjast upp í hverju einstöku landi virðast smá í augnablikinu. En þau munu án efa mynda smárennsli sem síðan munu vaxa í stórkostlegar ár kosen rufu í framtíðinni.

Ég er meðvitaður um það að sumu fólki finnst það muni tapa frelsinu ef það tilheyrir samtökum, vegna þess að það muni verða háð þeim. Ég verð samt sem áður að segja að þetta sama fólk lítur aðeins á eitt sjónarhorn varðandi samtökin. Þið getið ekki ástundað trúna fullkomlega án samtakanna. Ef þið útbreiðið þessa trú ein munið þið örugglega slaka á varðandi veikleika ykkar og ástundun ykkar mun smám saman einkennast af sjálfbirgingshætti. Ef þetta gerist getið þið ekki lengur þroskað ykkur sjálf né þróað sterkan hreinan anda innra með ykkur, því þetta er röng aðferð ástundunar. Eina leiðin til að efla lífskraft ykkar er gegnum samskipti við alls konar fólk með með viðleitni ykkar til að uppörva hvert annað getið þið vaxið í trúnni. Í þessu liggur stórkostleiki samtaka okkar.

Í Gosho, "Um blóm og fræ", segir Nichiren Daishonin: "Ef uppsprettan er óþrjótandi mun fljótið aldrei þorna upp". Á sama hátt eruð þið, hvert í sínu landi, hin göfuga uppspretta, þaðan sem straumurinn til kosen rufu mun endalaust renna. Hvort straumur kosen rufu í ykkar landi mun vaxa í kraftmikið stórkostlegt vatnsfall eða þorna upp, ákvarðast af styrk ykkar og starfsemi ykkar innan samtakanna. Með tilliti til þess, bið ég ykkur að vera viss um að hvert ykkar hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna við að koma á friði og grósku í landi ykkar í framtíðinni.

Eining er grundvöllurinn að hinni kraftmiklu framsókn hreyfingar okkar. Án einingar getið þið ekki starfað sem hið kraftmikla flæði til kosen rufu. Ég vona að þið getið alltaf umborið veikleika hvers annars og jafnframt því horft sérstaklega á hvers annars sterku hliðar. Á þann hátt getið þið skapað sterkt og öruggt flæði kosen rufu og í samstillingu skapað Itai dosin."

(Þýtt úr leiðsögn Daisaku Ikeda)

Í þessum orðum Ikeda Sensei er raunverulega allt að finna sem varðar nauðsyn þess að hafa samtök. Ef við ætlum að viðhalda hreini og sterkri trú verðum við að starfa í samtökum. Öll störf okkar fyrir samtökin munu skila sér í gæfu og hamingju okkur til handa. Í búddisma Nichiren Daishonin eru engar fórnir. Í ljósi lögmáls orsaka og afleiðinga er öll okkar viðleitni í þágu kosen rufu einungis inneign á reikning lífs okkar. Oft og tíðum sjáum við ekki stórfengleika samtaka okkar, tökum þau sem sjálfsagðan hlut, líkt og maðurinn sem tekur ekki eftir fegurð heimalands síns fyrr en hann hefur verið langtímum saman að heiman. Við ættum að þakka Gohonzon á hverjum degi fyrir samtökin okkar, þakka Sensei fyrir störf sín í þágu SGI og reyna að finna djúpt í hjörtum okkar hve gæfusöm við erum að tilheyra slíkum samtökum.

Soka Gakkai International starfar í þágu friðar, menntunar og menningar. Sensei segir að kosen rufu (alheimsfriður) sé m.a. hið hreina samband frá hjarta til hjarta og fátt snertir hjarta manneskju meira en fagrar listir. Á sunnudaginn hlustaði ég á kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Hamrahlíðarkórinn og Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólans flytja stórfenglegt tónverk eftir Benjamin Britten (1913-1976). Þá skildi ég hvað Ikeda Sensei á við. Að hlusta á 125 ungmenni syngja af slíkri snilld snerti virkilega streng í hjarta mínu og ég skynjaði búddaeðli þeirra í hverjum tóni. Það er á þennan hátt sem við getum hvert og eitt okkar, þjálfað okkur í að brjótast út úr fjötrum feimni og óöryggis og snert strengi í hjörtum fólks með þeim listrænu hæfileikum sem í hverju og einu okkar búa. Til þess þurfum við samtökin.

Fólk þráir frið framar öllu öðru. Draumar þess eru að menning heimsins megi blómstra í jarðvegi varanlegs friðar. Það þráir jafnframt að lifa hamingjusömu lífi allt til enda. Við sem höfum tekið að okkur að koma á alheimsfriði getum það aðeins með hjálp samtakanna. Þegar við eru djúpt sokkin í gagnrýni hvert á annað, á leiðtogana okkar og samtökin í heild, ættum við að rifja upp tilgang þeirra og markmið. Margir fræðimenn um víða veröld trúa því að SGI hafi nú þegar hafið göngu sem opna muni veröldinni dyr að mannúð og séu í raun alheimssamtök. - - - Ég er fullviss um það að ef við fjarlægjumst samtökin og missum sjónir á stórfengleika þeirra, mun trú okkar dvína.

Soka Gakkai leggur sig fram við að láta manneskjunni í té andlega næringu. Ikeda Sensei hefur svo sannarlega lagt sig allan fram við að gefa fólki þá andlegu næringu sem það þarf. Kazuo Fuji (varaleiðtogi bresku samtakanna, SGI-UK) skrifaði í málgagn þeirra 1992: "Þegar 21. öldin gengur í garð mun SGI hreyfingin verða nægilega sterk til að koma í veg fyrir stríð". Við sjáum mjög víða áhrif SGI hjá forystumönnum fjölmennustu þjóða heims. Má þar nefna að í sigurræðu sinni sagði Bill Clinton, þá nýkjörin forseti Bandaríkjanna: "21. öldin er öld friðar og mannúðar, öld breytinga og nýrra tíma, þar sem andleg verðmæti verða sett ofar öðru."

Ég get ekki látið hjá líða að nefna eitt afar mikilvægt atriði varðandi samtök okkar. Við erum öll mannleg og gerum mistök. Við verðum að temja okkur það viðhorf að leyfa hvert öðru að gera mistök. Ef við ekki gerum það rífum við okkar eigin trú niður innan frá, verðum gagnrýnin - og að lokum getum við átt á hættu að fjarlægjast samtökin og fyrr en varir er trú okkar á hinar stórkostlegu kenningar Nichiren Daishonin einnig að fjarlægjast hjörtu okkar.

Að lokum langar mig að vitna í Gosho þar sem Nichiren Daishonin segir: "En sú gleði að vera fæddur á síðari dögum lögmálsins og vera þátttakandi í útbreiðslu hins sanna búddisma. Hversu aumkunarverðir eru þeir, sem þrátt fyrir að vera fæddir á þessum tíma, geta ekki trúað á Lótus sútruna". (Bréf til Nike, I. hefti, bls. 253)

Úr fyrirlestri eftir Magneu Reynaldsdóttur

Yfirfarið af þýðingarnefnd SGI-Ísland

(Fyrirlesturinn var fluttur í nóvember 1992)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband