Klaufalegt maníukast

Einu sinni bjó ég á Álftanesi í ókláruðu húsi í 4 ár. Maðurinn minn var sjáðu til iðnaðarmaður og þeir geta ekki átt heima í kláruðum húsum.

 En hvað um það, þetta var fyrir tíma uppþvottavélarinnar minnar og ég var í stuði. Ég var ein heima þennan góða dag og var að þrífa. Tónlistin á fullu og ég í uppvaski og syngjandi ánægð með lífið. Fékk mér verðskuldaða pásu því ég þurfti að pissa, fá mér kaffi og reykja eina rettu. Byrjaði á salerninu og settist þar á hásætið.

 

Best ég geri smá pásu hérna og útskýri fyrir ykkur svo þið getið sem best séð þetta fyrir ykkur. Þannig er nefnilega málið að þegar ég er í maníu (ég er sko með geðhvörf) þá hugsa ég mjög hratt, er kvik í öllum hreyfingum, tala of mikið, of hratt og of hátt, veð úr einu í annað og lít út fyrir að vera alltaf að flýta mér.

 

Nú jæja, svo við höldum áfram með söguna þá sat ég þarna og pissaði og hugsaði hvernig ég gæti raðað húsgögnunum alveg upp á nýtt því það er mín uppáhaldsiðja þegar ég er í maníu. Þreif á mér bossaling og um leið og ég stóð upp dró ég upp buxurnar svo harkalega að klósettsetan skelltist til. Þvoði mér um hendur og fór fram til að halda áfram í kaffipásunni.

Settist í eldhúsið, en mér var undarlega illt í bakinu svo ég staldraði ekki lengi við kaffibollann. Stóð upp og hélt áfram með þrifin ekki í eins góðu skapi því alltaf fann ég til í bakinu. En nú bættist annað við! Það lak eitthvað kalt niður eftir lærinu á mér! Andskotinn sjálfur! Hvað var nú í gangi? Allt í einu fann ég sterka lykt af sítrónu?! Skellti mér inn á bað og dró niður um mig buxurnar.

Viti menn! Þegar ég hafði staðið upp af klósettinu í fyrra sinnið höfðu buxurnar flækst í ilmsteininum í klósettinu, lyft honum upp svo hann fór í kollhnís og endaði ofan í buxunum fastur í strengnum! Ég hló svo mikið að það var eins gott að ég var inni á baði því ég pissaði næstum á mig.

Þegar ég var búin að jafna mig svona eins og ég gat, hélt ég áfram að þrífa en ég get sagt ykkur að það var nú spurning hvort okkar ilmaði betur þegar kallinn minn kom heim um kvöldið, húsið eða ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband