Hverjum þjónar fyrirgefningin?

Fyrirgefningin kom mér algjörlega á óvart. Þrátt fyrir að ég hefði verið búin að vinna að henni með sjálfri mér í langan tíma. Henni fylgdi ákveðið tómarúm. Hatur mitt hafði búið í hjarta mér í 15 ár og nú var það bara horfið sísvona.

Á þessum 15 árum hafði ég ekki gert neitt við líf mitt. Ekkert sem gæti kannski orðið til þess að hann myndi eftir því að ég var til. Ég var mjög reið og bitur kona og þetta bitnaði á hjónabandi mínu og fjölskyldulífi. Ég var fórnarlamb og fór vel með það hlutverk.

Vitur vinkona sagði mér að kyrja og biðja fyrir hamingju hans. Þetta fannst mér algjörlega út í hött, en þar sem ég fékk þessa leiðsögn frá reyndri og viturri konu sem ég treysti fullkomlega, ákvað ég að reyna þetta.

Ójú, víst var það erfitt til að byrja með. Því mér fannst þessi maður ekki eiga hamingjuna skilið. Að mínu mati mátti hann lifa í óhamingju og kvalræði það sem eftir var. Ef ekki bara detta niður dauður. Hatrið sullaði um í brjósti mér.

Í bænum mínum og hugleiðslu grét ég og orgaði af reiði en píndi mig til að hugsa góðar hugsanir til þessarar mannveru. Eftir nokkur skipti gat ég sagt nafnið hans upphátt og talað um hann. Mér sjálfri fór að líða betur og ég ákvað að gera eitthvað við líf mitt.

Fór í skóla og tók að huga að söngferli mínum. Kom fram í útvarpi og sjónvarpi en það var eitthvað sem mér datt ekki til hugar að gera áður fyrr. Ekkert sem gat beint athygli hans að mér og mínum.

Eftir að hafa kyrjað fyrir honum öðru hverju í heilt ár, kom að því, að einn góðan veðurdag fann ég ekki lengur fyrir þessu nístingskalda hatri sem ég hafði hlúð að öll þessi ár.

Ég veit ekki hvort hann varð eitthvað hamingjusamari við bænir mínar, enda kemur það málinu ekkert við. Ég skildi það núna hvers vegna þessi góða vinkona sagði mér að gera þetta svona. Það var fyrir mig sjálfa.

Ég fann það sterkt að ég var ekki lengur fórnarlamb í lífinu og tók ábyrgð á lífi mínu og líðan. Ég varð sjálfboðaliði í lífinu. Með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir þótt kostirnir séu ívið fleiri.

Enda er besta hefndin sú að fyrirgefa hið ófyrirgefanlega, láta sér líða vel og sýna svo ekki verði um villst að lífið gangi mun betur án þessara einstaklinga.

Fyrirgefning felur ekki í sér hins vegar, samþykki að hinir liðnu atburðir séu teknir góðir og gildir. Heldur eingöngu það að hið liðna muni ekki lengur hafa tangarhald á manni og stjórna lífi manns.

Ég gerði mér grein fyrir að án allrar minnar reynslu væri ég ekki sú kona sem ég er í dag. Og vegna reynslu minnar get ég leiðbeint öðrum líkt og álfadísin mín forðum.

Í dag geri ég það sem mig langar til og mér gengur vel í því. Ég er ekki fórnarlamb eins né neins og alls ekki kringumstæðna. Reynsla mín er mér dýrmæt og ég hefði ekki viljað sleppa henni því ég lærði að vera ég.

Og ég kann nú bara alveg ágætlega við sjálfa mig.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband