"Við Leiðið" í minningu föður míns

Í dag er ár síðan faðir minn Reinhardt Reinhardtsson yngri lést skyndilega og er hans sárt saknað.

Hér set ég inn ljóð eftir föðurafa minn Reinhardt Reinhardtsson eldri til minningar um þessa tvo stórkostlegu heiðursmenn sem verða ávallt höfuð fjölskyldunnar sama hvar þeir eru.

Við Leiðið

Að leiðinu græna í garðshorni yst,

ég geng, þegar rökkvar um hæðir og voga

og stjörnuljós kvikna á bláloftsins boga.

Ég bugaður græt þig, sem nú hef ég misst.

Nú framar ei leiðir mig , höndin þín hlýja.

Til hvers á nú barnið þitt grátna að flýja?



Svo hugljúfar minningar, blærinn mér ber,

frá bernskunnar heiðu og sólríku dögum,

sem deyjandi ómar af ljúflingalögum.

Þær líða í hug mér, sem kveðja frá þér,

sem vaktir um nætur hjá vöggunni minni.

Nú vaki ég dapur hjá gröfinni þinni.



Nú blundar þú rótt, undir sefgrænni sæng.

Þú sofnaðir þreyttur og langferðamóður.

Á dagsljós þitt andaði dauðansblær hljóður,

þér dapraðist flug er hann snerti þinn væng.

Nú fagnandi önd þín til upphafsins líður,

en efninu faðmlag sitt móðir jörð býður.



Vor tár, gera oss skammsýn á skilnaðarstund.

Og skuggi okkar sjálfra er það myrkur,

sem bugar

vort þrek, ef ef andinn í hæðirnar hugar,

í hjartanu birtir og gleðst okkar lund.

Sjá! Dauðinn, er áfangi á eilífðarbrautum,

vort athvarf og lausn vor, frá jarðneskum þrautum.



Nú kveð ég þig faðir, í síðasta sinn

og saknaðartárin, ég strýk mér af hvarmi.

En sorgarnótt myrkri skal minningarbjarmi,

sem morgunsól eyða, ég trúi, ég finn -

þótt horfinn mér sértu - að látinn þú lifir

í ljósanna heimi, og vakir mér yfir.

Höf.Reinhardt eldri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband